Saga og skilgreining 

Núverandi bræðralag rekur uppruna sinn til bindindishreyfinga í Bandaríkjunum. Þjóðfélagsstaða í BNA í lok 18. aldar og fram eftir 19. öld einkenndist mjög af félagslegri nauð og hnignun. Veitingahús og ölkrár voru víða helstu samkomustaðir íbúanna. Þar kom fólk saman eftir vinnu til að dansa, spila og drekka.
 
Að því kom að hópur manna sá fram á að eitthvað yrði að gera til þess snúa þessari óheillaþróun til hins betra. Einn þeirra sem tók með afgerandi hætti þetta hlutverk að sér var dr. Benjamin Rush. Hann var læknir og prófessor og virkur stjórnmálamaður. Hann varð einn af leiðandi mönnum í hinu unga lýðveldi og einn þeirra sem undirritaði frelsisskrá Bandaríkjanna.
 
Árið 1840 var Wasingtonhreyfingin stofnuð. Aðdragandinn að stofnun hreyfingarinnar var á þá leið, að nokkrir iðnaðarmenn vöndu komur sínar á krá eina í Baltimore, en þeir sóttu þangað fundi í klúbbi sem þeir voru félagar í. Að kveldi 2. apríl þetta ár fengu þeir fréttir af því að þekktur bindindisprédikari, séra Mathew Hale Smith, ætlaði að flytja mál sitt í einni af kirkjum  borgarinnar. Klúbburinn sendi þá tvo félaga sína til þess að hlíða á Smith og til þess m.a. að kalla fram í ræðu hans athugasemdum við rökfærslur hans. Þeir urðu hinsvegar svo hugfangnir af framsögn ræðumannsins, sem á margan hátt lýsti þeirra eigin stöðu, að eftir fundinn með séra Smith varð fjörug umræða milli þessara tveggja og annarra klúbbfélaga.
 
Umræðan hélt áfram og leiddi til þess að hinn 5. apríl ákváðu sex af klúbbfélögunum að breyta lifnaðarháttum sínum, og ekki aðeins að þeir sjálfir ætluðu að gerast bindindismenn, heldur ætluðu þeir að berjast fyrir áfengislausu samfélagi. Þeir tókust í hendur og hétu að berjast fyrir málstaðnum af trúmennsku.  Héldu þeir síðan til Wasington, þar sem þeir frammi fyrir presti hétu að iðka sjálfsaga, fast ákveðnir því, að framvegis mundu þeir hafa veg sannleikans að leiðarljósi sínu.
 
Wasingtonhreyfingin, sem nefnd var eftir sexmenningunum sem fóru til Wasington, fékk strax frá upphafi mikið fylgi og hundruð þúsunda manna skrifuðu undir yfirlýsingu um að þeir vildu lifa vímulausu lífi.
 
Árið 1842 var The Order of Sons of Temperance (Regla Bindindissonanna) stofnuð í New York. Þessi samtök ætluðu að starfa eftir ákveðnum reglum, með reglusiðum, aðgangsorði og hátíðleika. Kærleikur, Hreinleikur og Hollusta voru samþykkt sem kjörorð nýju reglunnar og sem tákn hennar var jafnhliða þríhyrningur með sexhyrndi stjörnu innan í, til minningar um hina sex Wasingtonmenn.
 
Smátt og smátt var starfssvið reglunnar víkkað og tekið var upp sérstakt stigakerfi og hinn 5. desember 1845 var Tempel of Honor stofnað af félögum Sons of Temperance. Þessi dagsetning, 5. desember 1845, markar í raun upphaf Reglu vorrar.  Starfsemi reglunnar í Bandaríkjunum hnignaði smátt og smátt og á árinu 1945  lagðist starf hennar þar niður. Fyrsta musterið á Norðurlöndum var stofnað í Gränna í Svíþjóð 1887 og yfirstjórn Reglunnar var flutt til Svíþjóðar 1938 og nafn reglunnar breytt í Tempel Ridder Ordenen (Regla Musterisriddara).